Gamla Hafnarfjarðarbíó
Hafnarfjarðarbíó var kvikmyndahús í Hafnarfirði sem stofnað var árið 1914. Um þær mundir voru aðeins tvö
kvikmyndahús starfrækt í landinu, Gamla bíó og Nýja bíó. Árni Þorsteinsson hóf rekstur Hafnarfjarðarbíós á
Kirkjuvegi í Hafnarfirði, en í daglegu tali gekk það undir nafninu Árnabíó meðal Hafnfirðinga. Reksturinn var
löngum þungur, enda bíóferðir ekki á hvers manns færi þegar hart var í ári. Með komu breska hernámsliðsins
í seinni heimsstyrjöldinni batnaði hagur kvikmyndahússins stórlega, þar sem hermenn fylltu það flest kvöld og
landsmenn höfðu meira á milli handanna. Réðst Árni því í byggingu nýs kvikmyndahúss, við Strandgötu. Lauk
framkvæmdum síðla árs 1943 og sýningar hófust. Það þótti mjög glæsilegt, þegar það var opnað. Árið eftir hóf
bæjarsjóður Hafnarfjarðar rekstur annars kvikmyndahúss, Bæjarbíós. Samkeppnin var því hörð í litlum bæ með tvö
kvikmyndahús. Níels Árnason tók við rekstri kvikmyndahússins að föður sínum látnum árið 1956 en hafði starfað við
bíóið strax og hann hafði aldur til.Hafnarfjarðarbíó hætti rekstri árið 1988 og voru umsvif þess þá orðin afar lítil.
Fyrst um sinn var rekinn skemmtistaður í húsnæðinu en það síðar rifið. Hugmyndir um að Kvikmyndasafn Íslands
fengi aðsetur í húsinu náðu ekki fram að ganga, þar sem þáverandi yfirmenn safnsins lögðust gegn hugmyndum um
flutning þess frá Reykjavík.